Viðskipti innlent

SPM tapaði 4,6 milljörðum króna

Gísli Kjartansson er sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrasýslu.
Gísli Kjartansson er sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrasýslu. MYND/Pjetur

Sparisjóður Mýrarsýslu tapaði 4,6 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins samkvæmt yfirliti sem ætlunin er að leggja fulltrúaráðsfund sparisjóðsins sem verður á mánudag. Í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur einnig fram að mestan hluta tapsins, eða 4,5 milljarða, megi rekja til gengisfalls hlutabréfa.

Í tilkynningunni segir einnig að endanlegt uppgjör liggi fyrir í næstu viku. Áætlað eigið fé Sparisjóðsins er nú um 1,5 milljarðar króna og hefu rýrnað um nærri fimm milljarða á hálfu ári.

Hins vegar á að taka fyrir tillögu að stofnfjáraukningu á fulltrúaráðsfundinum á föstudag en Kaupþing hyggst leggja inn í sjóðinn tvo milljarða. Gangi þetta eftir eignast Kaupþing 70 prósent stofnfjár í Sparisjóði Mýrasýslu. Borgarbyggð átti áður allt stofnfé í sjóðnum og hafa málefni hans brunnið mikið á bæjarbúum. Boðað hefur verið til íbúafundar í Borgarnesi í kvöld vegna stöðu sjóðsins.

Í tilkynningu Sparisjóðsins segir einnig að afskriftir útlána hafi aukist mikið á fyrri hluta ársins og námu þær alls 1,9 milljarði króna. Fréttastofa útvarpsgreindi frá því í gær að hún hefði heimildir fyrir því að meðal þess sem væri afskrifað væru lán upp á milljarð sem veitt voru einstaklingum til kaupa á hlutum í Icebank.

Sparisjóðurinn segir hins vegar að almennur rekstur sparisjóðsins frá 1. júlí til dagsins í dag sé í samræmi við rekstraráætlanir. „Þá er fyrirséð að fyrirhuguð þátttaka Kaupþings og annarra fjárfesta í stofnfjáraukningu Sparisjóðsins mun treysta rekstrargrundvöll sjóðsins og styrkja hann verulega," segir í tilkynningunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×