Viðskipti innlent

Segir DV ekki eiga í fjárhagserfiðleikum

Breki Logason skrifar
Hreinn Loftsson stjórnarformaður Birtíngs.
Hreinn Loftsson stjórnarformaður Birtíngs.

Hreinn Loftsson stjórnarformaður Birtíngs segir að unnið hafi verið að því frá áramótum að koma DV undir hatt fyrirtækisins en tilkynnt var í gær að DV færi undir útgáfufélagið Birtíng. Hreinn segir fjárhagsstöðu DV góða og segir bjarta tíma framundan í útgáfu blaðsins. Tímarit Birtíngs ganga vel að hans sögn og bendir Hreinn á að Séð og heyrt hafi mælst með meiri lestur en Morgunblaðið.

„Við erum með tvö félög sem eru í meirihlutaeigu sama aðila og vildum ekki setja DV inn undir Birtíng fyrr en núna. Útgáfufélagi DV verður lokað í rólegheitum en það á fyrir skuldum svo það er ekkert vandamál," segir Hreinn og bendir á að þetta sé lokahnykkurinn í ferli sem hófst um svipað leyti og félagið fékk DV og meirihlutann í Birtíngi í gegnum félag sem heitir Hringur og var áður í eigu Baugs, en er nú að mestum hluta í eigu Stoða Invest.

Hringur á um 85% hlut í Birtíngi, Hreinn á um 5% sjálfur og aðrir starfsmenn og stjórnendur Birtíngs eiga restina.

Hreinn segir það hafa verið skynsamlegt að koma DV aftur á legg og hafa það í sér félagi. Um síðustu áramót hafi hinsvegar verið stigið stórt skref í að sameina yfirstjórn og rekstur þessarar tveggja fyrirtækja. „Núna sjáum við mikinn vind með DV og þessi lokahnykkur mun stuðla að aukinni samnýtingu í starfsmönnum, ljósmyndadeild og fleiru."

Hreinn segir að DV hafi gengið vel undir ritstjórn Reynis Traustasonar á þessu ári. „Við sjáum verulega aukningu í áskrifendum en vissulega eru erfiðir tímar framundan. Það þýðir samt ekkert að hætta öllu því einhverntíma komumst við út úrþessari kreppu sem menn eru að tala um."

Hreinn segir að hlutafjáraukning hafi átt sér stað í Birtíngi sem standi vel og sé skuldlaust fyrirtæki.

„Sum tímaritanna þarna eru mjög öflug á markaðnum og hafa verið að gera góða hluti lengi," segir Hreinn og bendir á Gestgjafann, Vikuna og Séð og heyrt.

„Svo dæmi sé tekið þá hefur Séð og heyrt mælst með meiri lestur en Morgunblaðið. Önnur tímarit hjá okkur eru að hefja sinn feril en í það heila hefur þetta gengið nokkuð vel. Hinsvegar eru þrengingar á markaðnum sem allir þekkja."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×