Innlent

Össur á þönum í Jemen

Össur og Ali Mojawar, forsætisráðherra Jemens.
Össur og Ali Mojawar, forsætisráðherra Jemens.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hefur í dag og í gær átt níu einkafundi með ráðherrum í ríkisstjórn Jemens en þar er hann til þess að ræða ýmis mál.

Össur fundaði með forsætisráðherrandum Ali Mojawar í höfuðborginni Sanaa í dag og þar var meðal annars rætt um framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og samvinnu Íslendinga og Jemena um nýtingu jarðhita, jarðskjálftarannsóknir, samstarf og þjálfun á sviði fiskveiða og fiskvinnslu.

Forsætisráðherrann fagnaði aukinni samvinnu og sagðist myndu ræða framboð Íslands við utanríkisráðuneyti sitt með það í huga að Jemen myndi styðja Ísland.

Í tilkynningu frá iðnaðaráðuneytinu segir að Össur hafi í gær flutt erindi um jarðskjálftarannsóknir og virkjun jarðhita við opnun á fimmtu Flóaráðstefnunni um jarðvísindi sem haldin er þessa dagana. Í máli sínu vakti ráðherra sérstaka athygli á þeim viðvörunarkerfum sem íslenskir vísindamenn hafa þróað til þess að segja fyrir um yfirvofandi jarðskjálfta og flóð undan jökli af völdum eldgosa.

Þá var iðnaðarráðherra í gær ásamt orkuráðherra Jemena, Mustafa Bahran, viðstaddur undirritun samnings milli Reykjavík Energy Invest og Rafveitu Jemena um frekari rannsóknir á Dahmar-svæðinu í nágrenni við höfuðborgina Sanaa vegna 100 megavatta jarðhitavirkjunar. „Í Jemen er mikill orkuskortur og hafa stjórnvöld verulegan áhuga á að virkja óbeislaðan jarðhita sem þar er í miklum mæli. Forsætisráðherra Jemens telur að Jemenar geti fetað í fótspor Íslands við nýtingu jarðhita," segir í tilkynningu iðnaðaráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×