Innlent

Dekkið sprakk á leið úr innbroti

Frá Flúðum.
Frá Flúðum. MYND/Stefán

Lögreglan á Selfossi hafði hendur í hári seinheppinna innbrotsþjófa sem stolið höfðu meðal annars tölvubúnaði úr grunnskólanum á Flúðum.

Eftir því sem segir í dagbók lögreglunnar fékk lögregla boð frá öryggisfyrirtæki aðfaranótt síðastliðins fimmtudags um yfirstandandi innbrot í grunnskólann. Lögreglumenn brugðust hratt við og fóru á vettvang jafnframt því sem lögreglubifreið fór inn á Laugarvatnsveg ef vera kynni að þjófarnir færu þá leið.

Það bar vel í veiði því að á Laugarvatni komu lögreglumenn að jeppabifreið sem var þar kyrrstæð með sprunginn hjólbarða. Í bifreiðinni voru þrír menn á aldrinum 16 til 19 ára og þar fundust tölvur og annað sem saknað var úr skólanum á Flúðum. Piltarnir viðurkenndu innbrotið og þjófnaðinn en verðmæti þýfisins var rétt tæp milljón króna. Ungu mennirnir voru íslenskir og af höfuðborgarsvæðinu eftir því sem segir í dagbók lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×