Viðskipti innlent

Alcoa gerir samning við verkfræðifyrirtækið HRV

Tíu til tuttugu tækni- og verkfræðingar frá íslenska verkfræðifyrirtækinu HRV Engineering munu starfa við álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði samkvæmt nýjum samningi fyrirtækjanna.

HRV Engineering mun sinna víðtækri verkfræðiþjónustu og ráðgjöf fyrir álverið. Verðmæti samningsins nemur hundruðum milljóna króna á ári.

Í tilkynningu um málið segir að samningurinn feli í sér að sérfræðingar HRV Engineering munu sinna ráðgjöf og þjónustu við þróun og innleiðingu tækninýjunga, viðhald, umhverfismál, öryggi, velferð starfsmanna og ýmislegt annað sem tengist rekstri og starfsemi álvers Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.

Sérfræðingar HRV Engineering munu starfa í álverinu en njóta stuðnings frá skrifstofum fyrirtækisins í Reykjavík og skrifstofum Mannvits og Verkíss á Egilsstöðum.

„Nýting endurnýjanlegra orkuauðlinda Íslands til álframleiðslu hefur skapað gríðarlega sérþekkingu á þessu sviði á Íslandi og verið grundvöllur fyrir vöxt HRV Engineering sem þekkingarfyrirtækis. Nýr samningur við Alcoa Fjarðaál tryggir áframhaldandi samstarf fyrirtækjanna og mikilvæga þekkingarmiðlun í báðar áttir milli Austurlands og höfuðstöðva okkar í Reykjavík. Samningurinn er því einnig mikilvægur fyrir áframhaldandi útflutning HRV Engineering á þekkingarverðmætum sem sköpuð hafa verið í íslenskum áliðnaði" segir Símon Þorleifsson sem stýrir ráðgjöf vegna rekstrar og viðhalds álvera hjá HRV Engineering.

„Álframleiðsla er flókið ferli og álver í dag eru í raun jafnt þekkingarfyrirtæki og framleiðslufyrirtæki. Samningurinn við HRV Engineering er liður í þeirri stefnu Alcoa Fjarðaáls að útvista sem mest af verkefnum til samstarfsaðila. Markmiðið með þeirri stefnu er að skapa umhverfi fyrir starfsemi annarra fyrirtækja á svæðinu, sem er mjög mikilvægt fyrir uppbyggingu sjálfbærs samfélags á Austurlandi," segir Óskar Borg, framkvæmdastjóri innkaupa hjá Alcoa Fjarðaáli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×