Viðskipti innlent

Aðalhagfræðingur SÍ segir að evran myndi skapa stöðugleika

Arnór Sighvatsson aðalhagfræðingur Seðlabankans segir að íslenska krónan sé undirrótin að sviptingum í efnahagslífi landsins og að aðild að Evrópusambandinu ásamt upptöku evrunnar myndi skapa meiri stöðugleika í efnahagsmálum Íslands.

Þetta kemur fram í viðtali þýska blaðsins Frankfurter Allegemeine Zeitung við Arnór í dag en þar ræðir hann um erfiðleikana sem steðjað hafa að fjármálamarkaðinum hér á landi undanfarna mánuði.

Fram kemur í máli Arnórs að Ísland sé nú statt á hættusvæði í efnahagsmálum og standi frammi fyrir stórum vandamálum við að koma stöðugleika á gjaldmiðil sinn krónuna.

„Til þess að ná stöðuleika þurfum við að skapa traust á íslensku krónunni," segir Arnór.

Aðspurður um hvort hann vilji spá fyrir um stöðu krónunnar á sama tíma að ári segir Arnór að Íslendingar hafi áður náð sér á strik eftir samskonar vandamál árið 2002. „Það gæti gerst að nýju. Við erum með sveigjanlegt efnahagslíf sem er fljótt að laga sig að aðstæðum," segir Arnór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×