Erlent

Gorbachev stofnar nýjan stjórnmálaflokk

Mikhail Gorbachev.
Mikhail Gorbachev.

Mikhail Gorbachev fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna ætlar að stofna nýjan stjórnmálaflokk ásamt auðkýfingnum Alexander Lebedev.

Flokkurinn á að vera óháður valdhöfum í Kreml. Hann mun berjast fyrir lagalegum og efnahagslegum umbótum og frjálsri fjölmiðlun.

Gorbachev er 77 ára gamall. Hann vann friðarverðlaun Nóbels árið 1990 fyrir að leyfa hinar friðsamlegu byltingar sem færðu Austur-Evrópu lýðræði eftir margra ára kúgun Sovétríkjanna.

Gorbachev er mjög dáður á Vesturlöndum en mjög óvinsæll heimafyrir. Með réttu eða röngu er honum kennt um upplausn Sovétríkjanna sem leiddi af sér efnahagslega og stjórnmálalega upplausn.

Þegar hann bauð sig fram til forseta árið 1996 fékk hann um hálft prósent atkvæða.

Lebedev segir að Gorbachev sækist ekki eftir þingsætum heldur vilji hann skapa nýja frjálsa og óháða stjórnmálahreyfingu sem geti stutt ungt fólk til góðra verka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×