Viðskipti innlent

Spron breytir einhliða erlendum lánum stærstu viðskiptavina sinna

Breki Logason skrifar
Höfuðstöðvar Spron.
Höfuðstöðvar Spron. MYND/VALLI

Á undanförnum vikum hefur Spron verið að bregðast við gengishruni íslensku krónunnar. Erlendum lánum stærstu viðskiptavina bankans hefur verið breytt einhliða í íslenskar krónur. Bankinn fer fram á frekari tryggingar í þeim tilvikum þar sem það er hægt, en reynir að koma á móts við þá sem ekki geta lagt þær fram.

„Við höfum verið að vinna í þessu undanfarnar vikur og verið að aðlaga okkar rekstur að breyttum aðstæðum. Meðal annars með því að lengja lán og annað," segir Jóna Ann Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Spron.

Hún segir einnig að bankinn hafi farið í fyrrnefndar aðgerðir en er ekki með nákvæmar tölur yfir hversu stór hópur þetta sé. Samkvæmt heimildum Vísis er um að ræða 150 stærstu kúnnanna, og segir Jóna það ekki fjarri lagi. „Þetta eru þeir sem eru með 100 milljónir eða meira."

Jóna segir aðstæður hafa gjörbreyst og í sumum tilvikum hafi veð í fasteignum verið lögð fram fyrir erlendum lánum. „Lánið er síðan komið langt upp fyrir veðið og við höfum verið að fara ofan í það og skoða. Aðstæðurnar eru þannig að við höfum engan aðgang að erlendu lánsfé og svo verður ekki á næstu misserum, við verðum að bregðast við því."

Jóna segir að almennt séð sýni kúnnar Spron þessu skilning. „En auðvitað kemur þetta illa við einhverja. Við höfum reynt að nálgast það þannig að um leið og aðstæður breytast verði hægt að breyta þessu aftur. Öllum kostnaði er haldið í lágmarki og við reynum að vinna með okkar viðskiptavinum."

Jóna segir að farið hafi verið í þetta fyrir nokkrum vikum en er ekki með á hreinu á hvaða gengi breytingin átti sér stað. Aðspurð hvort þessir viðskiptavinir þurfi ekki að leggja fram auknar tryggingar fyrir lánum segir Jóna að verið sé að skoða það.

„Það er hægt í sumum tilfellum en ekki í öðrum. Þá er frekar farið í það að lengja lán og dreifa þeim þannig að viðkomandi ráði við það. Við gerum okkur hinsvegar fyllilega grein fyrir því að við þurfum að taka eitthvað af þessu á okkur."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×