Viðskipti innlent

Telur ekki hættu á 75 prósenta verðbólgu

Danskur gestaprófessor við Háskólann í Reykjavík telur ekki hættu á sjötíu og fimm prósenta verðbólgu á Íslandi líkt og forstöðumaður greiningar Danske Bank hefur spáð.

Lars Christensen, forstöðumaður greiningar Danske Bank, sagði í viðtali við Bloomberg-fréttaveituna fyrir helgi að gengisfall krónunnar og stöðvun gjaldeyrisviðskipta myndi leiða til tíu prósenta samdráttar í hagvexti Íslands til loka fjármálakreppunnar og að verðbólga á Íslandi gæti farið í sjötíu og fimm prósent á allra næstu mánuðum.

Doktor Jesper Rangvid er prófessor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn og nú gestakennari við Háskólann í Reykjavík. Hann er sérfræðingur í alþjóðlegri fjármálastjórn og peningamálahagfræði.

Hann er ósammála Christensen og býst ekki við svo mikilli verðbólgu. Rangvid bendir á að gengi krónunnar hafi fram að kreppunni fyrir tveimur vikum lækkað um 30-40 prósent á árinu og það hafi skilað 8-14 prósenta verðbólgu. Gengið hafi lækkað um annað eins eftir að kreppan hófst og hann sjá því ekki hvernig verðbólgan eigi að hækka meira sem því nemur.

Hann segir þó að spá Christiansen geti ræst ef krónan haldi áfram að falla en væntanlega muni stjórnvöld grípa til aðgerða á næstunni til þess að styrkja gengi hennar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×