Innlent

Laun ráðherra og þingmanna hækka í samræmi við kjarasamninga

Laun æðstu embættismanna hækkuðu um rúmar 20 þúsund krónur frá og með 1. maí síðastliðnum samkvæmt ákvörðun sem Kjararáð tók á fundi sínum í lok ágúst. Laun ráðherra nálgast nú eina milljón króna.

Á heimasíðu Kjararáðs, sem ætlað er að fjalla um laun embættismannanna, kemur fram að samið hafi verið á bæði almennum vinnumarkaði og við opinbera starfsmenn á árinu. Í kjarsamningunum aðila vinnumarkaðarins hafi verið áhersla á að hækka launataxta og bæta lægstu laun á vinnumarkaði umfram aðra. Þannig hafi launataxtar á almennum vinnumarkaði hækkað almennt um 18 þúsund krónur en grunnlaun ríkisstarfsmanna um 20.300.

Kjararáði ber að gæta samræmis við kjarasamninga ríkisins þegar ákvörðun er tekin um laun æðstu embættismanna. Kjararáð segir að samkvæmt þessu sé nú tilefni til breytinga á launum þeirra sem heyri undir ráðið.

Komst Kjararáð að því að fylgja ætti þeirri meginstefnu sem gert hefði verið í kjarasamningum og því hækkuðu laun æðstu embættismanna um 20.300 krónur. Þetta þýðir að þingfararkaup er nú rúmar 562 þúsund krónur, ráðherralaun 992 þúsund krónur að undanskildum forsætisráðherra sem er með tæpa 1,1 milljón í mánaðarlaun. Forseti Íslands fær eftir breytingarnar um 1.830 þúsund krónur í laun á mánuði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×