Viðskipti innlent

Lítið í baksýnisspegilinn

MYND/GVA

Áhugavert er að líta í baksýnisspegilinn á þessum tímamótum. Athygli vekur hversu seint umfang og alvarleiki lausafjárkrísunnar kom raunverulega fram í dagsljósið. Í júlí og ágúst í fyrra var til að mynda mikið skrifað um það í erlendum fjölmiðlum að sennilega væri það versta afstaðið og að allar afskriftir tengdar undirmálslánum væru komnar fram.

Þetta kemur fram í morgunkorni Glitnis. Þar segir ennfremur:

„Núna ári síðar er hinsvegar fullljóst að enn eru ekki öll kurl komin til grafar og að sennilega verður ekki hægt að segja skilið við lausafjárkrísuna að fullu fyrr en á fyrri hluta næsta árs. Síðast í gær kom þannig upp úr dúrnum að bandaríski fjárfestingabankinn Merrill Lynch hefði afskrifað yfir 9 ma. Bandaríkjadala vegna lánakrísunnar á öðrum fjórðungi ársins.

Heildarafskriftir vegna fjármálakrísunnar hjá alþjóðlegum fjármálafyrirtækjum nema nú á fimmta hundrað milljarða Bandaríkjadala og hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagt að heildartapið vegna kreppunnar, beint eða óbeint, kunni að fara í þúsund milljarða dala. Þá er öllum orðið fulljóst að lausafjárkrísan hefur nú þegar tryggt sér heilan kafla í sögubókum framtíðarinnar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×