Viðskipti innlent

Hætta á frekari veikingu krónunnar

Greiningardeild Kaupþings telur hættu á frekari veikingu krónunnar vegna skerts vaxtamunar og mikils viðskiptahalla. Þetta kemur fram í sérstakri umfjöllun greiningardeildarinnar um gengismál.

Í umfjölluninni segir greiningardeildin að gengisvísitalan muni ná hámarki á öðrum ársfjórðungi og styrkjast þegar á árið líður. Hún verði í kringum 142 stig í lok árs, en til samanburðar er hún nú 158. Búast megi við að allt þetta ár verið raungengi krónunnar lágt í samanburði við sögulegt meðalraungengi, meðal annars vegna slakra fjármögnunarskilyrða og töluvert verri vaxtahorfa.

Þá gerir óhagfelld skilyrði á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hagkerfum torveldara að reka sig með miklum viðskiptahalla. Greiningardeildin bendir einnig á að stórir gjalddagar krónubréfa í haust gætu verið í uppnámi ef skilyrði á lánsfjármörkuðum lagist ekki en slíkt myndi setja þrýsting á íslensku krónuna.

Greiningardeildin segir að þessir þættir gætu færst í betra horf á næsta ári og þá muni krónan styrkjast. Hún verði þá í kringum 137 stig sem samrýmist bæði jafnvægi í vöruskiptum við útlönd og sögulegu meðalraungengi.

Kaupþing segir enn fremur að veiking krónunnar í ár hafi verið meiri en fyrri spár hafi gert ráð fyrir og að miklu leyti megi rekja það til vandræða á gjaldmiðlaskiptamarkaði. Það hafi torveldað stöðutöku með krónunni með framvirkum samningum. Það hafi því mikla þýðingu fyrir krónuna hvenær birti til á gjaldmiðlaskiptamarkaði.

Tilteknir hlutir gætu liðkað fyrir viðskiptum á gjaldmiðlaskiptamarkaði, til að mynda tilkynning um aukningu gjaldeyrisforða Seðlabankans eða sambærilegar aðgerðir eins og jákvæðar fréttir af fjármögnun bankanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×