Viðskipti innlent

2 milljarða króna viðbótarútgáfa krónubréfa

Þýski þróunarbankinn KfW tilkynnti í gær um 2 milljarða króna viðbótarútgáfu í flokk krónubréfa sem er á gjalddaga 15. júlí 2010. Bréfin bera 9,5% vexti en krafan er nokkuð lægri þar sem bréfin voru seld á yfirverði (100,95).

Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að þetta er þetta önnur krónubréfaútgáfan frá því að þrenginga fór að gæta á innlendum gjaldmiðlaskiptamarkaði í marsbyrjun, sem hafa dregið verulega úr ábata af stöðutöku með krónu, en KfW gaf út 3 milljarða króna í sama flokki 3. júlí síðastliðinn. Telur flokkurinn nú 5 milljarða króna.

Greining Glitnis segir að tímasetning útgáfunnar sé væntanlega ekki tilviljun þar sem krónubréf að nafnvirði 15 milljarðar króna séu á gjalddaga í dag og 5 milljarðar króna á gjalddaga á mánudaginn kemur auk áfallinna vaxta. Reikna megi með að útgáfan í gær sé framlenging á hluta þeirra bréfa sem nú séu á gjalddaga.

Þá telur Greining Glitnis líklegt að ríkisbréf hafi verið keypt á móti útgáfunni og endurspeglist það í veltutölum á skuldabréfamarkaði. Heildarútistandandi krónubréf nemi nú ríflega 323 milljörðum króna og hafi staðan ekki verið minni frá því í desember 2006.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×