Viðskipti erlent

Gjaldþrot Stones Invest smitar út um allt

Gjaldþrot Stones Invest smitar út um allt í dönsku viðskiptalífi. Bankar þurfa að afskrifa lán sín til félagsins og jafnvel Parken, eigandi FCK-fótboltaliðsins, fékk skell í dönsku kauphöllinni í morgun.

Fyrsti bankinn til að tilkynna um afskriftir vegna Stones Invest var EBH Bank sem greindi frá því að 100 milljónir dkr. eða sem svarar til 1,7 milljarða kr. yrðu afskrifaðar og væntingum til ársins breytt í samræmi við það.

Þá hafa hlutir í Parken Sport og Entertainment fallið um 16% í kauphöllinni í morgun. Þar að baki liggur að einn stærsti eigandi Parken, Steen Larsen, er með 500 milljónir dkr. eða sem svarar um 8,5 milljörðum kr. í "klemmu" hjá Stones Invest eins og það er orðað. Steen hefur að öllum líkindum tapað þessari fjárhæð.

Prófessor Per H. Hansen við Copenhagen Business School segir í samtali við Börsen að það kæmi honum ekki á óvart ef fleiri gjaldþrot fylgdu í kjölfar þess hjá Stones Invest. Prófessorinn nefnir þó að Steen Gude hafi tekið verulega áhættu í mörgum fjárfestingum sínum og því varla hægt að segja að bylgja gjaldþrota væri á leiðinni.

"En ef fasteignaverðið heldur áfram að falla munu fleiri félög verða gjaldþrota. Það er ekkert vafamál," segir Hansen.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×