Viðskipti innlent

Segir íslensk stjórnvöld mjög óánægð með Svía vegna lánamála

Samkvæmt frétt á vefsíðunni E24.se eru íslensk stjórnvöld mjög óánægð með Svía fyrir að hafa ekki viljað veita Íslandi lán fyrr en trúverðug áætlun um endurreisn landsins liggur fyrir.

Vefsíðan vitnar í háttsettan mann innan íslensku stjórnarinnar sem segir að þar á bæ merki menn að Svíar skilji sig úr hópi hinna norrænu ríkjanna hvað þvermóðsku varðar er kemur að fjárhagsaðstoð til handa Íslandi. Fram kemur í fréttinni að sænsk stjórnvöld hafi þegar sagt að þau muni verða með hinum norrænu ríkjunum í sameiginlegu láni til Íslands. Hins vegar hefur upphæðin og tímasetning á láninu ekki komið fram.

Haft er eftir Anders Borg, fjármálaráðherra Svía, að þegar land er í jafnmiklum erfiðleikum með fjármálalíf sitt og Ísland er verði þarlend stjórnvöld að geta sýnt fram á trúverðuga áætlun til að fá aðstoð. „Þegar slík áætlun liggur fyrir munum við verða reiðubúnir til að leggja okkar af mörkum," segir Anders Borg.

Háttsetti maðurinn innan íslensku stjórnarinnar segir í samtali við E24.se að svo virðist sem Svíar elski Íslendinga ekki eins mikið og Noregur og Danmörk. Og hann furðar sig á orðum Anders Borg um trúvrðuga áætlun því hún liggi fyrir í samkomulagi landsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

„Ef Svíar vilja ekki lána okkur getum við alveg komist af án aðstoðar þeirra," segir sá háttsetti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×