Viðskipti innlent

Viðræður Kaupþings og SPRON enn í fullum gangi

Jónas Sigurgeirsson upplýsingafulltrúi Kaupþings segir að viðræður mili Kaupþings og SPRON um sameiningu séu í fullum gangi. „Við munum á næstunni gera grein fyrir stöðunni í þessum viðræðum," segir Jónas í samtali við Vísi.

Morgunkorn greiningar Glitnis fjallar um málið og segir að í dag séu liðnar fjórar vikur frá því að viðræður hófust á milli Kaupþing og SPRON um mögulega sameiningu. Samkvæmt tilkynningu sem félögin sendu frá sér við það tilefni var gert ráð fyrir að viðræðum myndi ljúka á um fjórum vikum.

Greiningin gerir því ráð fyrir að tíðinda sé að vænta af sameiningarviðræðunum á næstu dögum. Sameining félaganna er háð samþykki hluthafafundar SPRON, stjórnar Kaupþings, Fjármálaeftirlitsins, Samkeppniseftirlitsins og lánveitenda félaganna og því ljóst að um langt ferli verður að ræða ákveði félögin að sameinast.

Þá er ljóst að mörg úrlausnarefni eru framundan verði skrefið stigið til fulls og stefnt á sameiningu. Eitt þeirra er að finna kaupendur að beinum og óbeinum eignarhlut SPRON í Exista. „Við teljum sameiningu félaganna jákvæða fyrir íslenskan fjármálamarkað," segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×