Skoðun

Fullvalda skáldskapur

Í dag eru 90 ár liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki. Um skeið virtust merkisafmæli í sögu þjóðarinnar hafa misst erindi sitt við venjulegt fólk. Þegar fortíðin knúði dyra á sparifötunum fannst almenningi hún lítill aufúsugestur. Nú ber annað við. Á þeim örlagatímum sem við nú lifum er fortíðin skyndilega nákomin og kær, samanburður við hana eðlilegur. Því er 1. desember 2008 táknrænn dagur, ekki aðeins fyrir þjóðfrelsi Íslendinga, heldur einnig fyrir enduruppgötvun Íslendinga á menningu sinni, hefðum og tungumáli sem virðast einu haldreipin.

Íslendingar reyna um þessar mundir að átta sig á tilverunni, hverjir þeir eru og til hvers lífi þeirra er lifað. Hvert um sig erum við að semja nýja lífssögu. Þessi saga er sett saman úr orðum móðurmálsins sem við öll deilum. Hún er sett saman úr hugmyndum um þroska, hamingju og gott líf sem við óskum öll eftir, sama með hvaða hætti við ætlum okkur að markmiðunum.

Bókmenntirnar gengdu því hlutverki um aldir að vera uppspretta sjálfsskilnings og samhengis. Sögur af siðferðilegum álitamálum og deilum sem óþekkt miðaldafólk sagði og skráði hafa fram á þennan dag verið fólki fyrirmynd í breytni og innblástur við að skilja samhengi hlutanna. Rökleg sundurliðun hræringa mannsálarinnar sem lúterskir eldklerkar og sálmaskáld settu niður í postillum og sálmakverum bjó til fyrirbæri eins og samvisku og iðrun, sem nú er sárlega kallað eftir. Stórskáld okkar daga hafa bundið nútímaheiminn í ljóðlínur og sögur sem eru líkt og sverðshögg á flækjuhnúta lífsins. Í meðförum þeirra öðlast tungumálið þann skýrleika sem við öll þurfum til að greina hismi frá kjarna. Hafi okkur verið borið orðamoð er þörf á næringarríkum hendingum.

Sjálfstæðisbarátta okkar og bókmenntir hafa ævinlega verið samslungin, til þeirra og tungumálsins voru rökin sótt forðum fyrir sjálfstæðri tilvist okkar. Það er trú okkar að einnig nú hafi íslenskar bókmenntir hlutverki að gegna. En þá skiptir hlutur almennings líka miklu, því það er forsenda íslenskrar bókaútgáfu að þátttaka lesenda - iðkendanna - sé ævinlega stór. Fámennið gerir að verkum að hér geta aldrei myndast skil á milli alþýðumenningar og hámenningar, íslensk menning er alþýðuhámenning eða ekki.

Það er eitt af undrum veraldar hvernig íslenskar fornbókmenntir gátu varðveist í landinu öldum saman, þrátt fyrir örbirgð og einangrun, löngu fyrir tilkomu prentverks. Það afrek verður ekki skilið án þess að hlutur almennings sé hafður í huga. Og það hvernig þessi þjóð síðan reis til bjargálna og allsnægta með undraskjótum hætti á sér fyrst og síðast eina skýringu: hið tiltölulega almenna læsi og bókmenntaþjálfun þjóðarinnar sem í fyllingu tímans opnaði henni leiðir inn í alla heima.

Við þurfum að treysta þennan grunn. Rithöfundar og útgefendur hafa í félagi við aðra á vettvangi íslenskrar bókmenningar mótað tillögur um hvernig hægt sé með tiltölulega einföldum hætti að stórefla lestrarmenningu Íslendinga. Um allt land vinna áhugasamir kennarar, bóksasafnsfræðingar og foreldrar þrekvirki í að búa börnin okkar undir að takast á við heim þar sem lestur og skilningur á samhengi er lykilhæfni. Vandamálið er að lítil samhæfing er á milli þeirra sem í baráttunni standa. Menn finna upp lestrarhjólið aftur og aftur með ærinni fyrirhöfn og alltof fáir vita af vopnabræðrum sínum. Þetta ætti að vera auðvelt að leysa ef vilji er fyrir hendi. Jafnframt verður að vinna þeim skilningi brautargengi að lestrarhvatning er eitt af mikilvægustu verkefnum samfélagsins. Rétt eins og varið er miklum fjármunum til að hvetja almenning til að haga sér skynsamlega í umferðinni, láta af reykingum og hreyfa sig oftar ætti almenningur einnig að fá að vita að læsi er eitt helsta hagsmunamál þjóðarinnar.

Góðir landsmenn, nú eru örlagatímar, sláum skjaldborg um íslenskar bókmenntir og íslenska menningu og sækjum fram!

Kristján B. Jónasson er formaður Félags íslenskra bókaútgefenda. Pétur Gunnarsson er formaður Rithöfundasambands Íslands.






Skoðun

Sjá meira


×