Viðskipti innlent

Ólafur Ísleifsson: Geri ráð fyrir að Geir taki málið upp vestanhafs

Ólafur Ísleifsson.
Ólafur Ísleifsson.

Ólafur Ísleifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, segir að svör Seðlabanka Íslands í dag varðandi viðræður við Bandaríska Seðlabankann hafi valdið vonbrigðum. Hann segist gera ráð fyrir að Geir Haarde forsætisráðherra, sem nú er staddur á allsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna í New York, noti tækifærið og taki málið upp á pólitískum vettvangi við Bandaríkjamenn.

„Þetta eru auðvitað ákveðin vonbrigði," segir Ólafur um þær fréttir að ekkert hafi komið út úr viðræðum við Seðlabanka Bandaríkjanna um skiptasamninga. „Það er sérkennilegt að það skuli hafa tekið Seðlabankann allan þennan tíma að upplýsa um þetta og hefði verið mun heppilegra ef bankinn hefði getað teflt fram aðgerðum sem hefðu vegið á móti þessum fréttum. En að koma með þetta eitt og sér er auðvitað ekki heppilegt innlegg í stöðu mála," segir hann.

Ólafur segir erfitt að segja til um hvað hafi orsakað það að ekki náðust samningar. „Við höfum ekki á neinu að byggja nema þessari yfirlýsingu, sem var eins og fleiri yfirlýsingar úr þessari átt, svolítið myrk."

Hann segist gera ráð fyrir því að Geir Haarde forsætisráðherra noti tækifærið vestanhafs til að taka málið upp á pólitískum vettvangi. „Það væri mjög heppilegt ef við gætum orðið aðilar að svona samningi eins og vinaþjóðir okkar hafa náð," segir Ólafur Ísleifsson að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×