Viðskipti erlent

BAA gæti þurft að selja flugvelli í Bretlandi

Langar biðraðir eru daglegt brauð á breskum flugvöllum.
Langar biðraðir eru daglegt brauð á breskum flugvöllum.

Samkeppnisyfirvöld í Bretlandi hafa komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið BAA sé í einokunaraðstöðu en félagið rekur helstu flugvelli Bretlandseyja. Það gæti þurft að selja flugvelli í þágu samkepninnar.

BAA rekur flugvellina Heathrow, Gatwick, Stansted og Southampton, auk flugvalla í Glasgow, Aberdeen og Edinborg í Skotlandi. Samkeppnisstofunin í Bretlandi segir að þetta breiða eignarhald sé aðalorsök vandamála sem plagað hafa flugfarþega í landinu undanfarin misseri en miklar tafir hafa ítrekað ollið vandræðum, nú síðast á Heathrow flugvelli. Fastlega er búist við því að bresk yfirvöld muni krefjast þess að BAA selji tvo af þremur Lundúnarflugvöllum sínum og flugvöllinn í Glasgow eða Edinborg að auki. Ákvörðunin hefur ekki verið tekin en búist er við því að hún komi í upphafi næsta árs.

Forstjóri BAA, sem er í eigu Spánverja, segist gera sér grein fyrir óánægju flugfarþega með þjónustuna en segist ekki sjá að uppskipting félagsins skipti máli í því sambandi. Samkeppnisstofnunin er hins vegar á öðru máli og sakar BAA um að hafa slegið slöku við í þjónustunni sökum yfirburða sinna á markaði. Ef fleiri aðilum væri hleypt að myndi það þýða betri þjónustu fyrir flugfarþega.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×