Viðskipti innlent

Samþykktu að selja allt stofnfé SPM til Nýja Kaupþings

Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti samhljóða á fundi sínum á föstudaginn var að taka tilboði frá Nýja Kaupþingi í allt stofnfé Sparisjóðs Mýrasýslu (SPM). Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki stjórnar Nýja Kaupþings.

Þá þarf Fjármálaeftirlit og Samkeppnisstofnun einnig að samþykkja samninginn sem og lánveitendur SPM. Með þessu segja fulltrúar Nýja Kaupþings og Borgarbyggðar að búið sé að draga úr óvissu varðandi afdrif Sparisjóðs Mýrasýslu og að kaupin séu þannig liður í endurskipulagningu sjóðsins.

Greint er frá þessu á vefsíðunni skessuhorn.is. Þar segir að bókfært verð stofnfjár sveitarfélagsins í sjóðnum var rúmar 500 milljónir króna en eins og fram hefur komið hefur afkoma sjóðsins verið afar slæm á þessu ári og eigið fé í raun uppurið. Fyrir gjaldþrot Kaupþings lá fyrir tilboð um kaup á nýju stofnfé í sjóðnum en það hafði ekki fengist staðfest af Fjármálaeftirlitinu áður en til gjaldþrots bankans kom.

Forsvarsmenn Borgarbyggðar og stjórn Sparisjóðsins hafa undanfarnar vikur unnið stíft að lausn á framtíð rekstrar og eignarhalds í SPM og er niðurstaðan þessi að Borgarbyggð selur allt stofnféð.

Vonast menn til að stjórn Nýja Kaupþings og ríkisvaldið meti það svo til lengri tíma litið að vænlegt verði að sparisjóðir verði áfram reknir í landinu. Hinsvegar verður tíminn einn að leiða í ljós hver afdrif SPM verður eftir að hann fer að öllu leyti í eigu ríkisbanka.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×