Viðskipti innlent

Microsoft flytur inn ráðstefnu til landsins

Farandráðstefna um vefhönnun og vefhýsingu mun hefja Evróputúr sinn á Íslandi þann 18. nóvember næstkomandi.

Ráðstefnan kemur hingað til lands á vegum Microsoft Íslandi og er hluti af verkefni sem fyrirtækið hefur sett af stað til að byggja upp og viðhalda þekkingu í upplýsingatækni hér á landi í erfiðu árferði. Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur er ókeypis.

Í tilkynningu frá Microsoft Íslandi kemur fram að fyrirtækið hefur skipulagt hópferðir íslenskra þekkingarstarfsmanna á ráðstefnur og námskeið á vegum Microsoft erlendis og hefur verið mikil þátttaka síðustu ár. Ráðstefnurnar eru mikilvægar svo þeir sem starfa við upplýsingatækni geti haldið þekkingu sinni við og tileinkað sér nýjungar eins fljótt og hægt er.

Í núverandi ástandi í efnahagslífinu hefur aðsókn að ráðstefnum erlendis hins vegar hrunið og við því hyggst Microsoft Íslandi bregðast.

„Það er skiljanlegt að fyrirtæki leiti allra leiða til að minnka kostnað, en til lengri tíma litið er það afar óheppilegt fyrir íslensk upplýsingatæknifyrirtæki að starfsmenn geti ekki sótt sér þekkingu út fyrir landsteinana," segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi. „Þvert á móti verðum við að nýta upplýsingatækni og hugvit íslenskra upplýsingatæknifyrirtækja til að koma okkur upp úr efnahagslægðinni næstu árin. Því sjáum við fyrir okkur að ef Íslendingar komast ekki á ráðstefnur erlendis verðum við að flytja þær inn."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×