Erlent

Á annað hundrað handteknir í barnaklámsaðgerð

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Getty Images

Spænska lögreglan handtók 121 mann og lagði hald á milljónir tölvuskráa í mjög umfangsmiklu barnaklámsmáli sem teygir anga sína alla leið til Brasilíu.

Barnaklámhringurinn sem um ræðir er talinn ná til 75 landa en rætur hans liggja í Brasilíu og á Spáni. Átta hundruð lögreglumenn tóku þátt í aðgerðinni á Spáni og réðust til inngöngu á rúmlega 200 heimili þar í landi. Athygli vakti að fjórir hinna handteknu eru undir 18 ára aldri en allur hópurinn kemur úr ótrúlegustu stéttum þjóðfélagsins, meðal annars var einn starfsmaður spænsku leyniþjónustunnar CNI handtekinn en af öðrum stéttum má nefna flugmenn, húsverði í skólum, leigubílstjóra og bankastarfsmenn.

Hringurinn hafði komið sér upp fullkomnu lokuðu tölvukerfi sem notað var til að skiptast á milljónum skráa með barnaklámefni í löndunum 75. Auk þeirra sem handteknir voru fylgist spænska lögreglan með 96 manns í viðbót sem talið er að tengist hringnum með einum eða öðrum hætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×