Viðskipti innlent

Glitnir spáir óbreyttum stýrivöxtum

Ingólfur Bender er forstöðumaður greiningardeildar Glitnis.
Ingólfur Bender er forstöðumaður greiningardeildar Glitnis.

Greiningardeild Glitnis spáir því að bankastjórn Seðlabanka Íslands muni halda stýrivöxtum óbreyttum en tilkynnt verður um ákvörðun stjórnarinnar á morgun. „Seðlabankinn hækkaði síðast stýrivexti um 0,50 prósentustig í apríl í 15,5% og hafa vextir verið hækkaðir um alls 1,75 prósentustig á árinu," segir í Morgunkorni Glitnsi.

Þar er einnig bent á að í júlí birti Seðlabankinn nýja verðbólgu- og þjóðhagsspá þar sem gert var ráð fyrir óbreyttum vöxtum fram á fyrsta fjórðung næsta árs. „Frá þeim tíma hefur gengi krónu lækkað um 6% og verðbólga reynst lífseigari síðustu mánuði en bankinn reiknaði með. Verðbólga síðastliðinna 12 mánaða mældist 14,5% í síðasta mánuði og hefur ekki verið meiri í 18 ár. Á móti vegur að vísbendingar eru um að hraðar hafi dregið úr vexti einkaneyslu en Seðlabankinn spáði og ber merki þess á húsnæðismarkaði, í kortaveltutölum, væntingum neytenda og nýskráningum fólksbifreiða svo nokkuð sé nefnt," segir greiningardeildin.

Vegna viðvarandi verðbólguþrýstings vænti greiningardeildin þess að bankastjórnin haldi stýrivöxtum óbreyttum enn um sinn til að varna víxlhækkun verðlags, launa og gengis erlendra gjaldmiðla gagnvart krónu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×