Viðskipti erlent

Minnsta atvinnuleysi í Danmörku síðan um 1970

Atvinnuleysi í Danmörku mælist nú 1,8% og hefur ekki verið minna síðan á árunum uppúr 1970. Það er einkum atvinnuleysi meðal eldri starfsmanna og kvenna sem hefur minnkað mikið frá áramótum.

Í frétt í Jyllands Postan er haft eftir Niels Rönholt aðalhagfræðingi Jyske Bank að engin merki séu um að atvinnuleysi muni aukast í náinni framtíð. Segir Rönholt að það sé nær eini ljósi púnkturinn í núverandi efnahagsástandi Danmerkur þar sem fasteignamarkaðurinn er á niðurleið, matvælaverð á uppleið og óvissa vegna kreppunnar á alþjóða mörkuðum.

Tala atvinnulausra í Danmörku er nú rúmlega 49.000 manns og er það í fyrsta skipti síðan á áttunda áratugnum að talan fer niður fyrir 50.000 manns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×