Erlent

Hótanir í garð Obama vekja slæmar minningar vestra

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/AP

Morðhótanir í garð forsetaframbjóðandans Baracks Obama virðast ekki hafa verið mjög raunhæfar en vekja upp slæmar minningar hjá bandarísku þjóðinni.

 

Fólkið sem handtekið var í Aurora í Colorado um helgina og kvaðst hafa verið á leið til Denver til þess að ráða Barack Obama af dögum hefði að mati yfirvalda varla verið fært um að fremja ódæðið. Hjá eldri Bandaríkjamönnum hafa þó vaknað ýmsar miður góðar minningar og minnast margir nú nóvemberdagsins árið 1963 þegar John F. Kennedy Bandaríkjaforseti var skotinn til bana í Texas auk morðsins á Robert Kennedy bróður hans fimm árum síðar og síðast en ekki síst blökkumannaleiðtogans Martin Luther Kings sem ráðinn var af dögum í Memphis 4. apríl vorið 1968.

 

Þá voru gerðar tilraunir til að myrða Bandaríkjaforsetana Gerald Ford og Ronald Reagan. Þrátt fyrir að þeir sem nú voru handteknir séu ekki taldir líklegir tilræðismenn hefur atvikið varpað skugga á flokksþing Demókrataflokksins og verður öryggisgæsla þar hert til muna. Einn hinna þriggja handteknu hafði það eftir öðrum úr hópnum að sá hefði sagst ætla að skjóta Obama til bana við ávarp hans á íþróttaleikvangi á morgun.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×