Viðskipti innlent

Neytendur svartsýnni en nokkru sinni fyrr

Íslenskir neytendur eru nú svartsýnni en þeir hafa áður verið frá því Gallup hóf að mæla væntingar þeirra í mars 2001.

Miðað við þá fylgni sem verið hefur milli gengis krónu, væntinga neytenda og þróunar einkaneyslu er hér á ferð enn ein vísbending þess að einkaneysla kunni að hafa dregist saman á 2. ársfjórðungi og muni skreppa töluvert saman það sem eftir lifir árs.



Greining Glitnis fjallar um mælinguna í Morgunkorni sínu. Þar segir að væntingavísitala Gallup, sem birt var í morgun, mældist 61,4 stig sem er lægsta gildi hennar frá upphafi. Vísitölugildið 100 markar skilin milli bjartsýni og svartsýni, enda eru þá jafnmargir svarendur jákvæðir og neikvæðir á ástand og horfur í efnahags- og atvinnumálum.

Allar helstu undirvísitölur lækka talsvert milli mánaða, en sérstaka athygli vekur afar lágt gildi undirvísitölu fyrir mat á efnahagslífinu, en sú vísitala mælist nú 45 stig. Ekki er að efa að gengisfall krónu og meðfylgjandi verðbólguskot hefur hér mikil áhrif, auk þess sem þrengra aðgengi heimilanna að fjármagni og umræða um yfirvofandi efnahagslægð hérlendis sem erlendis skiptir einnig máli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×