Viðskipti innlent

Úrvalsvísitalan hækkaði bæði í mars og apríl

MYND/GVA

Úrvalsvísitalan í Kauphöll Íslands hækkaði um 3,2 prósent í apríl og var það annar mánuðurinn í röð þar sem hlutabréf hækkuðu eftir samfellda lækkun fjóra mánuði þar á undan.

Á þeim tíma, frá 1. nóvember til 1. mars, lækkaði Úrvalsvísitalan um 40 prósent. Það sem af er ári hafa hlutabréf lækkað í verði um 18 prósent.

Greiningardeild Glitnis fjallar um þetta í Morgunkorni sínu og segir að nokkrar vísbendingar séu um að það versta kunni að vera afstaðið í þeirri orrahríð sem hefur staðið hefur yfir frá því síðasta sumar þegar lausafjárkrísan braust út. Þó sé mikil óvissa enn til staðar.

„Ýmsir mælikvarðar benda til þess að áhættufælni á heimsvísu sé á undanhaldi og þá hefur álag á skuldatryggingar bankanna dregist hratt saman undanfarnar vikur. Skuldatryggingaálag Glitnis og Kaupþings til 5 ára er nú komið niður í 370 pkt. eftir að hafa komist hæst upp í 1.000 pkt. fyrr í vetur og álag á skuldatryggingar Landsbankans stendur í 240 pkt. en komst hæst upp í 800 pkt. Sambærilegt álag fyrir ríkissjóð stendur nú í 125 pkt. og fór það hæst í 450 pkt. í marslok," segir í Morgunkorni Glitnis.

Við þetta má bæta að það sem af er morgni hefur Úrvalsvísitalan lækkað um 2,3 prósent og leiða Exista, Kaupþing og SPRON lækkanirnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×