Viðskipti erlent

Olíuverð fer lækkandi á heimsmarkaði

Verð á hráolíu til afhendingar í júlí lækkaði í rafrænum viðskiptum í New York í morgun niður í rúma 130 Bandaríkjadali tunnan og verð á samsvarandi samningi í London fór niður í tæpa 130 dali.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að ástæðan fyrir verðlækkuninni nú sé fyrst og fremst vangaveltur þess efnis að almenningur í Bandaríkjunum og Asíu muni draga úr olíunotkun við núverandi verð.

Telja sérfræðingar að fátt annað en minnkandi eftirspurn geti orðið til þess að lækka olíuverð til skamms tíma. Olíubirgðatölur verða birtar í Bandaríkjunum seinna í dag.

Hráolíuverð hefur hækkað um 40% það sem af er ári og deila menn um hvort raunveruleg eftirspurn eða spákaupmennska vegi þar meira.

Ýmsir bankamenn benda á að framvirkir samningar séu þrátt fyrir allt seldir áður en að afhendingu kemur, til raunverulegra notenda sem fá olíuna afhenta. Spákaupmenn séu því seljendur olíu til tafarlausrar afhendingar og stuðli þess vegna ekki að þeirri hömstrun sem sé forsenda fyrir verðbólu.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×