Erlent

250 þúsund heimili hafa orðið flóði að bráð í Indlandi

Frá flóðunum í Bihar.
Frá flóðunum í Bihar. MYND/Reuters

Hátt í tvær milljónir manna í norðaustanverðu Indlandi hafa flúið heimili sín vegna gegndarlausra flóða sem þar eru og um eitt þúsund manns hafa týnt lífi.

Í dag kom til áfloga í flóttamannabúðum þar sem verið var að dreifa matvælum til nauðstaddra sem varpar ljósi á þá staðreynd að hjálpargögn berast seint og illa og í takmörkuðu magni. Um 250 þúsund heimili hafa horfið undir vatn enda munu þetta vera mestu flóð á þessum slóðum í nær hálfa öld.

Það er áin Kosi í Bihar, einu fátækasta fylki Indlands, sem veldur þessum ósköpum en áin hefur flætt yfir bakka sína og gríðarlegt vatnsmagn hefur flætt yfir vegi, þorp og bæi. Kosi á upptök sín í Nepal þar sem mikil flóð urðu í síðustu viku. Heimamenn í Bihar kalla Kosi „harm Bhar" vegna tíðra flóða í ánni og stórfelldra skemmda sem hún veldur.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna segir að þegar sé farið að bera á niðurgangspestum í flóttamannabúðunum og er hættan sú að þetta breytist fljótlega í kóleru sem getur verið banvæn.

Reiknað er með að tveir eða þrír mánuðir séu þar til fólk getur snúið heim aftur - fyrr verður ekki búið að gera við sýkin og enn getur rignt í nokkrar vikur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×