Viðskipti innlent

Kaupmáttarskerðing ekki meiri síðan þjóðarsáttin komst á

MYND/Páll

Sú kaupmáttarskerðing sem íslenskir launaþegar hafa orðið fyrir undanfarna 12 mánuði á ekki sinn líka frá því stöðnunarskeið gekk yfir hagkerfið í kjölfar þjóðarsáttarinnar í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Glitnis. Þar segir ennfremur að horfur séu hinsvegar á því að kaupmáttarskerðingin verði talsvert meiri nú en þá þar sem framtíðin á vinnumarkaðinum er dökk og talsverð verðbólgan framundan.

„Laun samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar hækkuðu um 0,5% í september. Samkvæmt frétt Hagstofunnar hafa nýgerðir kjarasamningar við opinbera starfsmenn og hækkun launa þeirra hópa sem heyra undir Kjararáð áhrif til hækkunar vísitölunnar nú. Launaskrið á almennum markaði virðist því hverfandi þessa dagana, sem ætti ekki að koma á óvart í ljósi ört versnandi stöðu á vinnumarkaði, líkt og í þjóðarbúinu í heild.

Þrátt fyrir 9% hækkun launavísitölunnar undanfarið ár hefur kaupmáttur launa dregist saman um tæp 5%, ef miðað er við þróun vísitölu neysluverðs. Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna, að frádregnum skattgreiðslum og fjármagnskostnaði, hefur svo væntanlega dregist enn meira saman þrátt fyrir lækkun tekjuskatthlutfalls um 1% í ársbyrjun.

Þessu veldur ekki síst aukin greiðslubyrði af gengistryggðum lánum.

Gengistryggð lán námu tæpum 13% af heildarskuldum heimilanna um mitt ár, og miðað við gengisþróun síðan má ætla að greiðslubyrði þessara lána hafi aukist um allt að fjórðung síðan þá. Útlit er fyrir talsverða hækkun neysluverðlags á komandi mánuðum. Útlit á vinnumarkaði er ekki bjart um þessar mundir og verður launaskrið trúlega í lágmarki næstu misseri," segir í Morgunkorninu.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×