Viðskipti innlent

Ný íslensk ferðaskrifstofa tekur til starfa

Breki Logason skrifar
Helgi Eysteinsson framkvæmdarstjóri Iceland Travel og VITA.
Helgi Eysteinsson framkvæmdarstjóri Iceland Travel og VITA.

Ný íslensk ferðaskrifstofa, VITA, hefur nú tekið til starfa. Markmið VITA er að bjóða Íslendingum upp á fjölbreytt úrval skipulagðra afþreyingaferða, með tryggum flugkosti og framúrskarandi þjónustu á samkeppnishæfu verði. VITA er rekin af Iceland Travel, dótturfélagi Icelandair Group.

Helgi Eysteinsson framkvæmdarstjóri Iceland Travel og VITA segir að ferðaskrifstofan ætli að fara í samkeppni á ferðum til Kanarí og skíðaferðum til Ítalíu í vetur.

„Við byrjum á að fljúga vikulega frá desember til Gran Canaria sem er vel þekktur vetraráfangastaður og síðan frá miðjum janúar til Verona á Ítalíu," segir Helgi en ferðaskrifstofan ætlar sér stærri hluti þegar líða fer á sumarið og bæta við nýjum áfangastöðum.

Iceland Travel hefur aðallega verið í móttöku ferðamanna hingað til lands en ætlar nú að þjónusta íslendinga erlendis. En eru menn ekkert hræddir við samdrátt í utanlandsferðum á þessum tíma?

„Það má vel vera en það breytir því ekki að við teljum okkur vera með góða vöru í höndunum."

Flugvélar Icelandair eru notaðar auk þess em boðið er upp á þá nýjung að viðskiptavinir geta notað vildarpunkta í leiguflugunum.

„Það hefur vantað hingað til og eftirspurnin eftir því er mikil. Við leggjum áherslu á ferðir með tryggum flugkostum og gistingu í tiltölulega háum gæðaflokki á samkeppnishæfum verðum. Við verðum ekkert endilega ódýrastir, en viljum bjóða góða og öfluga þjónustu."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×