Viðskipti innlent

Singer og Friedlander selur rekstur á sviði iðgjaldafjármögnunar

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kaupthing Singer & Friedlander.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kaupthing Singer & Friedlander.

Kaupthing Singer & Friedlander, dóturfélag Kaupþings, hefur selt rekstur sinn á sviði tryggingaiðgjaldafjármögnunar til Close Brothers á lítils háttar yfirverði miðað við bókfært verð. Þetta kemur fram í tilkynningu Kaupþings til Kauphallar Íslands.

Með þessu losar Singer og Friedlander um lausafé sem nemur um hundrað milljónum punda, eða um 16 milljörðum króna. Jafnframt hefur félagið nánast hætt rekstri á sviði hrávöruviðskiptafjármögnunar og hafa 97 prósent af upphaflegu eignasafni, sem nam tæplega 350 milljónum punda, jafnvirði um 55 milljarða króna, verið greidd upp.

Kaupþing keypti Singer og Friedlander árið 2005 og hefur síðan unnið að endurskipulagningu á rekstri félagsins. Þessu til viðbótar vinnur Singer og Friedlander að því að hætta starfsemi á sviði eignafjármögnunar og hafa margir hugsanlegir kaupendur lýst áhuga á starfseminni í heild eða að hluta eftir því sem segir í tilkynningunni.

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kaupthing Singer & Friedlander, segir enn fremur í tilkynningunni að lausafjárstaða félagsins styrkist enn frekar í kjölfar þessara ráðstafana „og í ljósi þess að innlánaafurð okkar á netinu, Kaupthing Edge, hefur gengið mjög vel. Við erum því áfram bjartsýn á stöðu rekstrarins í Bretlandi," segir Ármann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×