Viðskipti innlent

FME fer með veitingu innheimtuleyfa eftir áramótin

Innheimtulög taka gildi þann 1. janúar 2009. Með lögunum er Fjármálaeftirlitinu (FME) falið að fara með veitingu innheimtuleyfis.

Til að mega stunda innheimtu fyrir aðra er sett fram það skilyrði að innheimtuaðila hafi áður verið veitt innheimtuleyfi. Það sama á við um aðila sem kaupir kröfur í þeim tilgangi að innheimta þær sjálfur í atvinnuskyni.

Í tilkynningu á vef FME segir að lögmenn, opinberir aðilar, viðskiptabankar, sparisjóðir, aðrar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki geta hins vegar stundað innheimtu án innheimtuleyfis. Aðrir geta sótt um leyfi til innheimtu.

Fjármálaeftirlitið mun að auki hafa eftirlit með því að innheimtustarfsemi leyfisskyldra aðila, opinberra aðila, viðskiptabanka, sparisjóða, annarra lánastofnana og verðbréfafyrirtækja sé í samræmi við innheimtulög, reglur og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra. Rétt er að taka fram að lögin taka ekki til innheimtu opinberra aðila á sköttum og gjöldum og löginnheimtu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×