Viðskipti innlent

Kalla eftir stjórnmálaforystunni

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Staða dagsins skoðuð í ljósi sögunnar Þórarinn V. Þórarinsson, fyrrverandi formaður Vinnuveitendasambandsins, og Ari Skúlason, sem áður var hagfræðingur og reyndar síðar framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, ræða hér við Óla Kristján Ármannsson viðskiptaritstjóra.
Staða dagsins skoðuð í ljósi sögunnar Þórarinn V. Þórarinsson, fyrrverandi formaður Vinnuveitendasambandsins, og Ari Skúlason, sem áður var hagfræðingur og reyndar síðar framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, ræða hér við Óla Kristján Ármannsson viðskiptaritstjóra. Markaðurinn/Anton
„Núna stendur krafan á stjórnmálamennina að hafa forystu um að móta sýn um það, hvernig við komumst aftur á fast land og getum hafið uppbyggingu á ný,“ segir Þórarinn V. Þórarinsson, lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands.

Rætt er við hann og Ara Skúlason hagfræðing, sem áður var hjá Alþýðusambandi Íslands, í Markaðnum í dag um hvort byggja megi á reynslu þjóðarsáttarinnar árið 1990 í efnahagsumróti dagsins í dag.

Þeir segja ljóst að nauðsynlegar umbætur geti orðið um margt sársaukafullar, svo sem á vettvangi fjármála ríkis og sveitarfélaga. „Svo verða ríki og borg að taka höndum saman um sóknarsýn í orkumálum. Ekki gengur lengur að menn tali þar út og suður,“ segir Þórarinn.

Ari bendir á að stjórnarmeirihlutinn sé ríflegur og því ætti allir möguleikar að vera á því að hægt sé að ná utan um stöðuna sem uppi er í efnahagsmálum.

Hann segir jafnframt ljóst að endurskoða þurfi hér stefnuna í ljósi undangenginnar reynslu. „Upp á síðkastið hefur til dæmis komið í ljós að margt af því sem við töldum okkar helstu styrkleika, líkt og sveigjanleiki og svo framvegis, reynist kannski bara veikleiki og við þurfum að sammælast um á hvað við ætlum að leggja áherslu.“

Þórarinn segir jafnframt reynsluna sýna að krónan sé of lítil til að þjóna hagsmunum fyrirtækja, einstaklinga og jafnvel ríkisins. „Um þetta deila menn í raun og veru ekki lengur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×