Viðskipti innlent

Róbert: Kominn tími til að breyta til eftir tíu ár

Róbert Wessman, fráfarandi forstjóri Actavis.
Róbert Wessman, fráfarandi forstjóri Actavis.

Róbert Wessman er hættur sem forstjóri hjá Actavis. Þetta staðfesti hann í samtali við Vísi nú fyrir skömmu. Aðspurður um ástæður þess að hann hættir svarar Róbert að hann sé með mikla hagsmuni í sínu eigin félagi, Salt Investments, og að tími hafi verið kominn á breytingar.

„Þessi ákvörðun mín kemur kannski eins og köld vatnsgusa framan í starfsfólkið en þetta er ekki ákvörðun sem var tekin í flýti. Ég lofaði sjálfum mér því fyrir tveimur til þremur árum að hætta eftir þann tíma og nú er ég hættur. Ég er búinn að vera hjá Actavis í tíu ár og það er einfaldlega kominn tími til að breyta," segir Róbert.

Róbert mun einbeita sér að fjárfestingafélagi sínu, Salt Investments, en hann hyggst ekki setjast í forstjórastólinn þar. „Ég er með toppmann, Árna Harðarson, sem stýrir þessu og verð meira á kantinum að sinna þeim verkefnum sem þarf. Eftir tíu ár í djúpu lauginni verður fínt að vera með einn kaldan á laugarbakkanum og fylgjast með hinum," segir Róbert og hlær.

Hann segir stöðu Salt Investsments trausta. „Félagið hefur lokið við fjármögnun og eiginfjárstaða þess er mjög góð. Við horfum björtum augum fram á veginn," segir Róbert.

Aðstoðarforstjóri Actavis, Sigurður Óli Ólason, mun setjast í forstjórastólinn hjá Actavis.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×