Viðskipti innlent

Tap Stoða 11,6 milljarðar króna

Óli Kristján Ármannsson skrifar
í ársbyrjun Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður og Jón Sigurðsson forstjóri sjást hér á kynningu ársuppgjörs FL Group (nú Stoða) í byrjun ársins.
í ársbyrjun Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður og Jón Sigurðsson forstjóri sjást hér á kynningu ársuppgjörs FL Group (nú Stoða) í byrjun ársins. Fréttablaðið/Anton
Stoðir (áður FL Group) töpuðu 11,6 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Á sama tíma í fyrra hagnaðist félagið um rétt rúma 8 milljarða króna. Heldur hefur dregið úr tapi félagsins milli ársfjórðunga en á fyrsta fjórðungi nam tap Stoða 47,8 milljörðum króna.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að tapið nú skýrist einkum af fjármagnskostnaði og af lækkun á markaðsverðmæti eignarhlutar Stoða í Glitni banka. Tap vegna 32 prósenta hlutar félagsins í bankanum nemur 8,9 milljörðum króna. Vaxtagjöld nema 8,5 milljörðum.

Aðrar kjarnafjárfestingar Stoða eru í Baugi Group, Trygginga­miðstöðinni (TM) og Landic Property. TM og Landic skiluðu einnig uppgjöri í gær. Á fyrstu sex mánuðum ársins tapaði TM 130 milljónum króna, en Landic hagnaðist um 435 milljónir. Fram kemur að hagnaður af áframhaldandi starfsemi Landic á fyrri helmingi ársins nemi 5,4 milljörðum kóna.

FL Group var tekið af markaði í júníbyrjun og nafni þess breytt í Stoðir. Haft er eftir Jóni Sigurðssyni, forstjóra félagsins, að nýtt nafn sé rökrétt þar sem megnihlutverk Stoða sé að efla og styðja við kjarnafjárfestingar félagsins og veita kjölfestu til framtíðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×