Viðskipti innlent

Bretar lána Íslendingum 582 milljarða til að standa skil á Icesave

Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta.
Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta.
Breska fjármálaráðuneytið er að leggja lokahönd á lán til Íslendinga upp á þrjá milljarða punda, eða um 582 milljarða íslenskra króna. Þetta er fullyrt í breska viðskiptablaðinu Financial Times í kvöld. Þar er sagt að lánið sé hugsað til þess að íslensk yfirvöld geti staðið skil á skuldum vegna innlána breskra sparifjáreigenda hjá Icesave. Eins og Vísir greindi frá fyrr í kvöld er von á sendinefnd frá breska fjármálaráðuneytinu til landsins í vikunni og segir FT að tilgangur ferðarinnar sé að ganga frá skilmálum lánsins og hefur það eftir íslenskum ráðamönnum.

Ekki hefur verið gengið frá upphæð lánsins en blaðið segir að búist sé við því að það verði um þrír milljarðar punda. Blaðið segir að það sé um þrjátíu prósent af landsframleiðslu Íslands, en samkvæmt útreikningum Vísis er það nær því að vera helmingur af landsframleiðslunni.

Financial Times hefur eftir talsmanni breska fjármálaráðuneytisins að í kjölfar viðræðna Alistairs Darling og Geirs Haarde hafi verið ákveðið að senda menn til landsins til þess að handsala samning sem miðaði að því að bæta sparifjáreigendum í Bretlandi hlut sinn í Icesave.

Þá er sagt að samkomulagið muni létta á þeirri spennu sem verið hefur á milli íslenskra og breskra yfirvalda undanfarið. Ekki er gert ráð fyrir að samningurinn nái til sveitarfélaga og ríkisstofnana sem áttu fé inni á reikningum Landsbankans.

Að endingu er vitnað í Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sem segir að samkomulagið ætti að vera í höfn á miðvikudag, eða á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×