Handbolti

Aðalsteinn hættur hjá Fylki og á leið til Þýskalands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aðalsteinn Eyjólfsson er að hætta hjá Fylki.
Aðalsteinn Eyjólfsson er að hætta hjá Fylki.

Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari Fylkis sem leikur í N1-deild kvenna, er hættur hjá liðinu og á leið til Þýskalands þar sem hann mun stýra karlaliði.

Þetta staðfestir Gunnar Kristinsson, formaður stjórnar handknattleiksdeildar Fylkis, í samtali við Vísi í dag.

Aðalsteinn mun taka við liði SVH Kassel sem leikur í þriðju efstu deild í Þýskalandi - svokallaðri Regionalliga. Kassel leikur í suðvesturriðli deildarinnar en alls eru riðlarnir fimm. Sigurvegarinn í hverjum riðli kemst upp í B-deildina.

Kassel er nýliði í deildinni og sagði Gunnar að þetta hafi komið óvænt upp í síðustu viku.

„Honum var boðið út til að skoða aðstæður hjá félaginu. Í kjölfarið var honum gert tilboð sem hann gat ekki hafnað," sagði Gunnar en Aðalsteinn heldur utan á fimmtudaginn.

„En ég vil ítreka það að þetta er allt gert í góðu. Aðalsteinn er búinn að standa sig frábærlega hjá Fylki og lítur á þetta sem heilmikið tækifæri fyrir sig. Það er ekki hægt að standa á móti því."

Gunnar sagði enn fremur að Fylkir muni ganga frá sínum þjálfaramálum í dag. Liðið er í neðsta sæti deildarinnar en það er enn stigalaust eftir átta umferðir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×