Viðskipti innlent

SmartMedia opnar söluskrifstofu í Danmörku

Fyrr í þessari viku opnaði SmartMedia ehf söluskrifstofu í Óðinsvéum og mun skrifstofan sjá um sölu og markaðssetningu á vörum og þjónustu SmartMedia í Danmörku.

Í ljósi aðstæðna á Íslandi ákváðu eigendur SmartMedia að leita að nýjum tækifærum innanlands sem og erlendis. Skoðun á mögulegum mörkuðum leiddi í ljós að danski markaðurinn væri góð byrjun til að taka fyrstu skref SmartMedia á erlendum markaði og hefur SmartMedia nú þegar ráðið til sín 2 sölumenn til að sinna verköflun þar ytra.

Til að byrja með verður lögð sérstök áhersla á SmartWebber light tilboð fyrirtækisins, sem er tilbúinn veflausn með val um 7 stöðluð vefsnið og fullkomnu vefumsjónarkerfi.

„Það vita allir hvernig staðan er á Íslandi í dag, en það þýðir ekkert að gefast upp og hlaupa í felur og því ákváðum við að spýta í lófann og sækja á nýja markaði, enda erum við með mjög svo samkeppnishæfa vöru til að fara með út fyrir landsteinanna," segir Sæþór Orri Guðjónsson, framkvæmdastjóri SmartMedia í tilkynningu um málið

„SmartMedia mun vinna alla þjónustuna frá Vestmannaeyjum með það að markmiði að styrkja starfsemina þar enn frekar og vonandi bæta við starfsmönnun í eyjum, en í dag eru 5 manns starfandi hjá SmartMedia. Við munum að sjálfsögðu halda áfram að þjónusta okkar íslensku viðskiptavinum vel og vinna að því að auka markaðshlutdeild okkar á Íslandi."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×