Viðskipti innlent

Spá óbreyttri verðbólgu í maí

Ingólfur Bender er forstöðumaður greiningardeildar Glitnis.
Ingólfur Bender er forstöðumaður greiningardeildar Glitnis.

Greiningardeild Glitnis spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,9 prósent milli apríl og maí og ársverðbólga verði því áfram 11,8 prósent.

Fram kemur í Morgunkorni Glitnis að reikna megi með að áhrifa vegna gengislækkunar krónunnar muni enn gæta í maí þó svo að stærsti kúfurinn sé liðinn hjá. Eldsneytisverð haldi áfram að hækka og margt bendi til þess að enn sé nokkur verðþrýstingur á matvörumarkaði sem enn hafi ekki skilað sér út í verðlag og nægir að nefna verð á mjólk og mjólkurvörum í því sambandi.

Greiningardeildin býst enn fremur við lítilsháttar verðlækkun á nafnverði húsnæðis á árinu en sú lækkun sé þó aðeins brot af þeirri hækkun sem átti sér stað á síðasta ári. „Við teljum líklegt að húsnæðisverð eins og Hagstofan mælir það muni lækka lítillega í maí og að markaðsverð húsnæðis lækki um tæplega 4% yfir árið og að lítilleg lækkun verði einnig á árinu 2009," segir í Morgunkorninu.

Býst við að verðbólga minnki hratt frá og með haustinu

Frá og með haustinu telur Glitnir að hratt muni draga úr árshraða verðbólgunnar og að hún verði nálægt átta prósentum í árslok og að 2,5 prósenta verðbólgumarkmið Seðlabankans náist um mitt næsta sumar.

„Forsendur þess að þetta gangi eftir eru fyrst og fremst þær að gengi krónunnar taki að hækka á ný í sumar og að krónan styrkist hægt og bítandi út spátímabilið. Jafnframt skiptir ró á vinnumarkaði miklu. Verði farið af stað með nýjar og meiri launakröfur en þegar hefur verð samið um eykst hættan á víxlverkun launa, verðbólgu og gengis en slíkt myndi óhjákvæmilega hafa aukna verðbólgu í för með sér," segir einnig í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×