Viðskipti innlent

Ekkert stórmál að leysa ágreining um Icesave fyrir dómstólum

Forsætisráðherra segir ekkert stórmál að leysa ágreining við bresk stjórnvöld um tryggingu fyrir innlánun Icesave reikninga Landsbankans fyrir dómsstólum. Viðskiptaráðherra segir að Icesave reikningar í Bretlandi og Hollandi hafi verið starfræktir í skjóli EES-samningsins og menn hafi reist sér hurðarás um öxl.

Reikningum Icesave var lokað í upphafi vikunnar bæði í Bretlandi og Hollandi og þeir sem töldu að tekist hefði að millifæra með herkjum í þessari viku, var tjáð í morgun að allar millifærslur frá mánudegi myndu ganga til baka.

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Alistair Darling fjármálaráðherra, sögðu á blaðamannafundi í morgun að íslensk stjórnvöld hefðu greint þeim frá því að ekki væri ætlunin að ábyrgjast inneignir 300 þúsund breskra sparifjáreigenda í Icesave, netbanka Landsbankans í Bretlandi. Brown fullvissaði fólk um að breska stjórnin myndi tryggja innistæðurnar og að mál yrði höfðað á hendur íslenska ríkinu vegna þessa.

Í erlendum fréttamiðlum er talið að ábyrgð íslenska ríkisins í Bretlandi gæti numið allt að fimm milljörðum punda, jafnvirði um þúsund milljarða íslenskra króna miðað við gengi Seðlabankans í dag, sem eru um tvöfaldar tekjur ríkissjóðs samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Málefni Icesave eru á forsíðu netútgáfu stærstu fjölmiðla í Hollandi en þar eiga um 120 þúsund sparifjáreigendur inneignir að jafnvirði um tæplega þrjú hundruð milljarða íslenskra króna, sem er ríflega helmingur af tekjum íslenska ríkisins næsta ár.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×