Viðskipti innlent

Landic Property tóku formlega við stjórn Keops í morgun

Skarphéðinn Berg Steinarsson forstjóri Landic Property.
Skarphéðinn Berg Steinarsson forstjóri Landic Property.

Forsvarsmenn Landic Property fóru í morgun á skrifstofur Keops Development og tóku við stjórn félagsins af Stones Invest. Lögfræðingar Landic Property sendu Stones Invest bréf í gær þar sem yfirtakan var tilkynnt og jafnframt gerðar kröfur á Stones um endurgreiðslur á þeim fjármunum sem Landic Property var búið að inna af hendi vegna viðskiptanna. Jafnframt að Landic Property áskilur sér allan rétt að bótum ef ekki yrði orðið við kröfunum.

Starfsmenn Landic Property hafa verið að fara yfir rekstur Keops Development í dag til þess að fá yfirlit yfir stöðu þess og sjá hvernig Stones Invest hefur staðið að rekstrinum á undanförnu. Þessi vinna mun eflaust taka nokkra daga.

Landic Property er staðráðið í að koma rekstrinum á réttan kjöl á ný, og tryggja þannig verkefni Keops Development víðs vegar í Danmörku.

Greinilegt var að Stones Invests hafði ekki burði til þess að halda framkvæmdum gangandi og það var ein meginástæðan fyrir því að Landic ákvað að yfirtaka reksturinn. Með því sýnir Landic ábyrga afstöðu gagnvart öllum aðilum, lánadrottnum, fjárfestum og verktökum.

Mun meira tjón hefði hlotist af því að koma verkefnum í þrot, því þau eru flest mjög langt á veg komin og arðbær fjárfesting til framtíðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×