Viðskipti innlent

Eru ósammála um túlkun IFRS-reglna

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á Aðalfundi Kaupþings Sigurður Einarsson stjórnarformaður og Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri. Sigurður sagði á aðalfundi bankans í byrjun mars að stefnt væri á upptöku evru sem starfrækslu- og kauphallarmyntar bankans frá og með næsta rekstrarári.
Á Aðalfundi Kaupþings Sigurður Einarsson stjórnarformaður og Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri. Sigurður sagði á aðalfundi bankans í byrjun mars að stefnt væri á upptöku evru sem starfrækslu- og kauphallarmyntar bankans frá og með næsta rekstrarári. Markaðurinn/Anton
Ekki er heimilt að leggja saman evru og danska krónu við mat á því hvort evra geti verið starfrækslugjaldmiðill fyrirtækis. Þetta kemur fram í rökstuðningi ákvörðunar Ársreikningaskrár vegna umsóknar Kaupþings um heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli. Á aðalfundi Kaupþings í marsbyrjun tilkynnti bankinn að umsóknin hefði verið dregin til baka og upptöku evru í bankanum frestað fram yfir áramót.

Ársreikningaskrá hafði hins vegar heimilað Kaupþingi að taka upp evru sem starfrækslumynt í úrskurði sínum 22. desember síðastliðinn en einungis að því gefnu að samruninn við hollenska bankann NIBC yrði að fullu frágenginn strax í byrjun þessa árs. Var mat stofnunarinnar að eftir slíkan samruna uppfyllti bankinn skilyrði laga um að evra gæti talist starfrækslumynt hans. Þetta gekk sem kunnugt er ekki eftir og var samruni bankanna raunar blásinn af í janúarlok. Þá má segja að heimildin hafi verið marklítil enda hafði Kaupþing ekki ráðrúm nema milli jóla og nýárs til að uppfylla skilyrðið um samrunann.

Hins vegar má lesa úr úrskurðinum að með því að leggja saman danska krónu og evru þóttist Kaupþing vera búið að sýna fram á slíkt vægi gjaldmiðlanna saman að réttlætti að evra teldist starfrækslumynt bankans. Dönsk króna og evra eru sem kunnugt er tengdar með samningi milli Seðlabanka Danmerkur og Seðlabanka Evrópu, þar skipta­gengið er tæplega 7,5 og vikmörk 2,5 prósent, en sögulega hefur munað mun minna á gjaldmiðlunum. Í ljósi þessa og að Ársreikningaskrá taldi að með samruna við NIBC væri vægi evru í rekstri bankans komið yfir tilskilin mörk má hins vegar áætla að ekki þurfi mikið að breytast í rekstri Kaupþings til þess að evran nái því vægi í rekstrinum til að verða starfrækslumynt að mati Ársreikningaskrár.

Meira ber hins vegar í milli í túlkun Ársreikningaskrár og Kaupþings á lögum um ársreikninga og alþjóðlegum reikningskilastöðlum (IFRS). Kaupþing telur að samkvæmt stöðlunum beri bankanum að hverfa frá notkun krónunnar. Á þetta sjónarmið fellst Ársreikningaskrá ekki.

Samkvæmt heimildum Markaðarins telur Kaupþing að matið á því hvort IFRS-reglur knýi á um upptöku annarrar starfrækslumyntar og ákvörðun þar að lútandi sé á herðum stjórnar hvers fyrirtækis og að í raun þurfi ekki sækja um til Ársreikningaskrár, en falli félög ekki undir IFRS-staðla þá þurfi að sækja um. Á þetta fellst Ársreikningaskrá ekki heldur og segir ákvæði sem bankinn bendir á í þessa átt eiga við um leiðbeiningnar við „umreikning til framsetningargjaldmiðils þegar hann er annar en starfrækslugjaldmiðill“.

Innan Kaupþings þykir tæpast samræmast anda laga um Ársreikninga að leggja stein í götu fyrirtækis sem er bæði með tæp 80 prósent af tekjum og tæp 80 prósent af skuldum í annarri mynt en þeirri íslensku og vill skipta yfir í aðra starfrækslumynt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×