Viðskipti innlent

Seðlabankann skortir sveiganleika

Greiningadeild Kaupþings segir að Seðlabanka Íslands skorti sveigjanleika. Mikilvægt sé fyrir bankann að hafa í huga að þolmörk verðbólgumarkmiðs bankans séu 1,5%. Lykilatriði sé fyrir bankann að geta sýnt sveigjanleika án þess að glata trúverðugleika.

Mikilvægt að horfa til þolmarkanna

Greiningadeild bendir á að sum ríki, líkt og Tyrkland, hafi ákveðið að víkka út þolmörk sín til þess að ná þessu fram. Önnur, líkt og Nýja-Sjáland, hafi ákveðið að lækka vexti, þrátt fyrir að verðbólga sé utan markmiðs, með því loforði að verðbólgan kæmist niður fyrir þolmörk að 2-3 árum liðnum.

„Ef Seðlabanki Íslands hefði sömu viðmið og Seðlabanki Nýja-Sjálands stæði hann nú frammi fyrir því verkefni að ná verðbólgu niður fyrir 4% fyrir mitt ár 2010. Þetta er mun sveigjanlegra, raunhæfara og kostnaðarminna markmið en að ætla sér að koma verðbólgunni niður fyrir 2,5% innan tveggja ára líkt og Seðlabankinn virðist nú stefna að. Og þarf ekki að skaða trúverðugleika bankans," segir í Hálf-fimm fréttum Kaupþings.

Hugsanlega þarf að víkka út þolmörkin

Greiningadeild segir að þolmörkin hafa því hlutverki að gegna og Seðlabankinn ætti að taka þau aftur í notkun sem fyrst. Vel mætti hugsa sér að íslenska ríkið myndi víkka út þolmörk Seðlabanka Íslands til þess að létta undir með honum svo bankinn þurfi ekki að streða langt fyrir utan markmið í langan tíma og þannig skaða trúverðugleika sinn eða skaða hagkerfið með því að reyna ná óraunhæfum markmiðum.

Forsenda þess að ávinna sér trúverðugleika sé að setja sér raunhæf markmið sem hæfi íslenskum aðstæðum frekar en að setja sér of þröng markmið sem bíti af trúverðugleikanum í hvert skipti sem þau falli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×