Viðskipti innlent

Hagnaður Eik banka nam 122 milljónum íslenskra króna

Eik banki í Þórshöfn.
Eik banki í Þórshöfn.
Eik Banki birti í gær uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung og var þar með fyrsta fjármálafyrirtækið í Kauphöllinni til að birta afkomutölur. Eik banki er með tvíhliða skráningu á Íslandi og í Danmörku en bankinn var skráður á markað í fyrrasumar. Hagnaður bankans á fjórðungnum nam 7,9 milljónum danskra króna sem svarar til 122 milljóna íslenskra króna og dróst afkoman saman um 93% frá sama tímabili árið áður. Arðsemi eiginfjár á fjórðungnum var 0,4% samanborið við 7,0% í fyrra.



Arðgreiðslur dragast saman

Hreinar rekstrartekjur námu 119,4 milljónum danskra króna og lækkuðu um 40% á milli ára. Ástæður lækkunarinnar má rekja til taps á hlutabréfum og lægri arðgreiðslu frá SPRON heldur en í fyrra. Heildararðgreiðslur dragast saman um 61,1 milljón danskra króna frá sama tímabili í fyrra. Rekstrartekjur skiptust þannig að hreinar vaxtatekjur námu 160 milljónum danskra króna (+88%), þóknanatekjur voru 39,8 milljónir danskra króna (+39%) og gengistap nam 82,9 milljónum danskra króna í stað 83,1 milljón hagnað í fyrra. Rekstrarkostnaður var alls 97,6 milljónir danskra króna og jókst um 45%.

Efnahagsreikningur færeyska bankans stóð í 20,6 milljörðum danskra króna í lok fjórðungsins og dróst saman um tæp 5% frá áramótum. Útlán jukust lítillega frá áramótum og hlutfall innlán á móti útlánum var 82,3% í lok 1F 2008. Hafa ber í huga að samanburður á milli ára er erfiður þar sem danski hluti SkandiaBanken og sá rekstur sem áður heyrði undir Kaupþing Færeyjar komu inn í reikninga Eik í fyrsta skipti á tímabilinu.

Standa fastir við fyrri spá

Þrátt fyrir að núverandi markaðsaðstæður séu óhagstæðar standa stjórnendur Eik Banka keikir við fyrri spá sína um að hagnaður fyrir gangvirðisbreytingu eigna, afskriftir útlána og skatta verði 335 milljónir danskra króna á árinu, jafnvirði 5,2 milljarða íslenskra króna.

Heimild: Hálf-fimm fréttir Kaupþings.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×