Skoðun

Mannréttindayfirlýsingin 60 ára

Guðrún Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Umræðan

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna

Árið 1948, í kjölfar voðaverka heimsstyrjaldarinnar síðari, samþykkti alþjóðasamfélagið skjal sem ætlað var að leggja hornsteininn að nýrri heimsskipan. Í heimi sem skipt var upp af nýlenduherrum og markaðist af kynþáttaaðskilnaði var mannréttindayfirlýsingin ótrúlegt þrekvirki því í henni felst fyrsta alþjóðlega viðurkenning þess að mannréttindi og frelsi sé réttur allra manna, alls staðar og með því markar hún þáttaskil í sögunni. Með yfirlýsingunni var lagður grundvöllur að uppbyggingu hins alþjóðlega mannréttindakerfis og hún hefur með árunum orðið leiðarljós þeirra sem vinna að eflingu og virðingu mannréttinda.

Mannréttindayfirlýsingin áréttar göfgi og gildi mannsins og byggir á því að allir hafi sömu óafsalanlegu mannréttindi. Við krefjumst öll jafnra tækifæra og mannsæmandi lífskjara, og höfum þörf fyrir fæði, klæði og húsaskjól. Við viljum geta haft áhrif á samfélag okkar og fá tækifæri til að njóta gæða þess. Í mannréttindum felst einnig vernd gegn ofbeldi í hvaða mynd sem er og þau grundvallast á virðingu fyrir einstaklingnum.

Mannréttindayfirlýsingin hefur ómælda þýðingu fyrir heimsbyggðina en áhrifa hennar gætir í lögum og stjórnarskrám um víða veröld. Lögin nægja þó ekki ein og sér; til þess að sækja rétt sinn og virða rétt annarra verður fólk að vita hvað felst í mannréttindum. Útbreiðsla yfirlýsingarinnar og þekking á ákvæðum hennar er því mikilvæg forsenda mannvæns samfélags þar sem fólk nýtur mannhelgi, jafnréttis, borgaralegra og pólitískra réttinda og er öruggt um líf og afkomu. Nú þegar syrtir í álinn má ekki slá af kröfum um mannréttindavernd. Brýnt er að viðbrögð við efnahagskreppunni ógni ekki réttaröryggi borgaranna og þeim mannréttindum sem hafa áunnist á síðustu 60 árum. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna byggist á hugsjón um samfélag mannhelgi, réttlætis og jafnra tækifæra fyrir alla. Látum þessa hugsjón varða leiðina að hinu nýja Íslandi.

Höfundur er framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.






Skoðun

Sjá meira


×