Innlent

Dæmdur fyrir árás eftir deilur um Ólafsvík

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás fyrir utan veitingahús í Norðlingaholti í fyrrahaust. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu 690 þúsund krónur í miskabætur.

Fyrir utan veitingastaðinn kastaðist í kekki milli mannanna eftir að hinn ákærði hafði farið niðrandi orðum um Ólafsvík en þaðan var fórnarlambið. Tók fórnarlambið hinn ákærða kverkataki en gekk svo í burtu. Hinn ákærði mun þá samkvæmt vitnum hafa ráðist á manninn og slegið hann með bjórflösku í andlitið. Við það fékk fórnarlambið þrjá skurði á efri vör og sprungur á glerungi á þremur tönnum.

Við ákvörðun refsingar var horft til þess að maðurinn játaði brot sitt og þess að hann hafði orðið fyrir harðræði af hálfu fórnarlambsins áður en hann réðst á það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×