Viðskipti innlent

Viðsnúningur á miklum halla á utanríkisviðskiptunum

Eftir geysimikinn halla á utanríkisviðskiptum undanfarin ár er nú tekið að rofa heldur til í þeim efnum. Álútflutningur hefur stóraukist á síðustu mánuðum, en álver Alcoa á Reyðarfirði náði fullri afkastagetu um miðjan apríl. Ennfremur hefur álverð haldist hátt undanfarið og er útlit fyrir að svo verði áfram á komandi misserum.

Í nýrri þjóðhagsspá greiningar Glitnis er gert ráð fyrir að viðskiptahalli minnki úr tæplega 16% af vergri landsframleiðslu á síðasta ári í 10% á næsta ári.

Næstu árin mun svo viðskiptahalli minnka enn frekar þar sem hraðari vöxtur verður í útflutningi vöru og þjónustu en innflutningi, auk þess sem halli á þáttatekjum mun heldur minnka. Verður hallinn að mati greiningarinnar í námunda við 6% af vergri lands í upphafi nýs áratugar.

Greining Glitnis segir í Morgunkorni sínu hvað viðskiptahallann varðar að svipaða sögu megi segja af verði sjávarafurða og álsins. Skerðing þorskkvóta setur þó nokkurt strik í reikninginn hvað varðar heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða.

Á móti vegur að skilyrði til vaxtar verða verri hjá fyrirtækjum almennt framan af spátímanum. Kemur það til bæði vegna þess að fjármagn er bæði torfengnara og dýrara en áður, og eins sakir þess að hagvöxtur á alþjóðavísu mun verða með minna móti á næstunni. Þó mun draga jafnt og þétt úr þessum neikvæðu áhrifaþáttum er á spátímann líður og ættu rekstrarskilyrði útflutningsgreina að vera orðin nokkuð ákjósanleg á seinni árum spátímans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×