Viðskipti innlent

Um 87,5% af kvótanum frá 1984 hefur skipt um eigendur

Könnun sem LÍÚ gerði í vor sýndi að 87,5% af upphaflega kvótanum sem úthlutað var árið 1984 hefur skipt um eigendur og verið keyptur á núverandi útgerðaraðilum. Þetta kemur fram á vefsíðu LÍÚ.

"Sú gagnrýni að útgerðarmenn landsins geri út á gjafakvóta er á veikum grunni byggð því könnun frá því í vor sýndi að um 87,5% aflaheimildanna sem úthlutað var 1984 hafa skipt um hendur og verið keyptar af núverandi útgerðaraðilum. Aðeins um 12,5% upphaflegs kvóta er enn í eigu þeirra sem fengu honum úthlutað," segir Adolf Guðmundsson, nýkjörinn formaður LÍÚ.

Adolf segir einnig að í umræðu um fiskveiðistjórnunarkerfið sé gjarnan ýjað að því að það sé sniðið að þörfum stærri útgerða. Í þeirri umræðu gleymist t.d. sú staðreynd að frá því að aflamarkskerfinu var komið á hafi 32% veiðiheimilda í þorski verið færðar frá aflamarksskipum til smærri báta auk þess sem umtalsverðar aflaheimildir í ýsu hafi verið fluttar til þeirra.

Könnunin, sem vísað er til frá í vor, náði til fisktegunda sem voru kvótasettar á sínum tíma og hafa verið það óslitið síðan. Þetta eru þorskur, ýsa, ufsi, karfi, grálúða, síld og loðna. Könnunin var gerð til að undirstrika atvinnurétt útgerðarmanna sem varinn er af eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar og vegna villandi umræðu um að þeir sem stunda útgerð í dag geri það í krafti aflaheimilda frá árinu 1984.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×