Viðskipti innlent

Undrast ákvörðun þýskra yfirvalda varðandi Kaupþing Edge

Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar gamla Kaupþings.
Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar gamla Kaupþings.

Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar gamla Kaupþings, segir það koma flatt upp á sig að þýsk yfirvöld ætli að lána tryggingasjóði innistæðueigenda á Íslandi þrjú hundruð og átta milljónir evra, nærri fimmtíu og fimm milljarða króna, svo greiða megi út innistæður viðskiptavina Kaupþings Edge í Þýskalandi. Þýska blaðið Spiegel greinir frá því á vefsíðu sinni og hefur eftir talsmanni þýska fjármálaráðuneytisins.

Steinar Þór segir fulltrúa þýska fjármálaráðuneytisis ekki hafa lagt til þessa lausn í viðræðum í síðustu viku, allt annað hafi verið upp á borðinu. Eignir hafi átt að ganga upp í skuldir líkt og gert hafi verið með Kaupþing Edge í Austurríki, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Steinar Þór segir á morgun verði ákveðið hvenær næsti viðræðufundur verði haldinn vegna málsins.

Kaupþing Edge var víða rekið af dótturfélögum, þar á meðal í Bretlandi, Belgíu og Lúxembúrg og féll því undir tryggingasjóði viðkomandi landa. Í Austurríki, Skandinavíu og Þýskalandi var Kaupþing Edge útibú og undir ábyrgð íslensk tryggingakerfisins að hluta líkt og Icesave.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×